Valmynd

Vöruflokkar Vöruflokkar

Gagnlegar upplýsingar Gagnlegar upplýsingar

Algengar spurningar

Almennar spurningar

Hvernig er afgreiðslutíminn hjá Stoð?

Verslunin er opin frá 9-17 alla virka daga. Verkstæðið er opið 9-15. Vörumóttakan er opin 9-16.

Er Stoð bara á einum stað?

Já, Stoð er með alla starfsemi á sama stað, að Draghálsi 14-16.

Má koma og versla hjá ykkur án þess að vera með beiðni?

Já, það er sjálfsagt. Verslunin er öllum opin.

Hvernig er aðgengið hjá ykkur fyrir hjólastóla?

Við erum með rúmgóð stæði fyrir fatlaða við innganginn og öll starfsemin okkar er á fyrstu hæð.

Hvað tekur langan tíma að afgreiða netpantanir?

Við gerum okkar besta til að senda pantanir af stað frá okkur næsta virka dag.

 

Göngugreining og innlegg

Í hvaða tilfellum getur göngugreining hjálpað manni?

Göngugreining getur verið lausn við eftirtöldum vandamálum:
-Þreytuverkir og pirringur í fótum
-Verkir eða eymsli í hnjám, tábergi, iljum eða hælum
-Beinhimnubólga
-Óþægindi eða verkir í baki og/eða mjöðmum
-Hásinavandamál
-Óþægindi í ökklum
-Þreytu- og álagsverkir hjá börnum og unglingum

Þarf ég að panta tíma fyrirfram í göngugreiningu?

Já, þú getur pantað tíma á netinu eða með því að hringja í okkur í síma 565-2885

Þarf ég vottorð frá lækni til að koma í göngugreiningu?

Það er ekki þörf á því. Ef þú ert með greiningu frá lækni, láttu okkur þó endilega vita.

Komið þið út á land að göngugreina?

Að svo stöddu framkvæmum við einungis göngugreiningar á Draghálsi 14-16 í Reykjavík.

Hvað þurfa börn að vera orðin gömul til að mega fara í göngugreiningu

Börn þurfa að vera orðin tveggja ára gömul til að fara í göngugreiningu.

Get ég komið í göngugreiningu ef ég nota göngugrind að staðaldri?

Í flestum tilfellum, já. Ef þú getur gengið hægt á bretti, þar sem hægt er að styðja sig við, geturðu komið í göngugreiningu.

Hvernig fer göngugreining fram?

Göngugreiningin tekur um 30 mínútur. Inni í greiningarherberginu gengurðu á göngubretti með innbyggðum þrýstinemum sem skila upplýsingum um göngulag þitt á tölvutæku formi. Starfsmaður lengdarmælir einnig fótleggi þína. Nánari upplýsingar um hvernig göngugreining fer fram má finna hér: https://www.stod.is/gongugreining/

Hverjir framkvæma göngugreiningar hjá Stoð?

Lærðir íþróttafræðingar með áralanga reynslu af göngugreiningum

Má foreldri mitt/fjölskyldumeðlimur/vinur/aðstoðarmaður vera með mér í herberginu á meðan göngugreining fer fram?

Já, það er alveg sjálfsagt. Ef líka á að göngugreina þann einstakling þarf þó alltaf að bóka tvöfaldan tíma.

Fæ ég sérgerð innlegg í kjölfar göngugreiningar?

Oft er það niðurstaðan en alls ekki alltaf. Stundum kemur í ljós í göngugreiningu að aðrar lausnir henti betur, t.d. almenn innlegg, hækkunarhælar, tábergspúðar eða öðruvísi skór. Starfsmenn Stoðar veita faglega og persónulega ráðgjöf og fræðslu til að finna góða lausn við þínum vanda og til áframhaldandi bættrar heilsu.

Hvað þarf ég að bíða lengi eftir innleggjunum mínum?

Við gerum okkar besta til að biðin sé ekki lengri en 2-3 vikur.

Hvað á ég að gera ef innleggin passa ekki í skóna mína?

Alltaf skal fjarlægja innleggin sem fyrir eru í skónum áður en nýju innleggjunum er komið fyrir. Ef innleggin eru enn of löng má klippa framan af þeim. Ef það dugar ekki til geturðu komið með innleggin og skóna til okkar og við aðstoðum þig við að koma innleggjunum fyrir.

Á ég alltaf að vera með nýju innleggin mín?

Í fyrstu skiptin sem nýju innleggin eru notuð gæti óþæginda orðið vart og því má takmarka notkunina til að byrja með. Auka skal notkunina smátt og smátt þangað til að hún verður samfelld. Ef engin óþægindi eru þá er óhætt að vera með þau að vild. 

Hvernig á ég að hugsa um innleggin mín?

Ef innleggin blotna á að taka þau upp úr skónum og láta þau þorna við stofuhita en ekki setja þau á ofn. Þetta á sérstaklega við þau innlegg sem hafa verið límd saman með einhverjum hætti. Til að þrífa innleggin skal nota rakan klút og strjúka af þeim. Ekki nota vatn og sápu því það getur skemmt innleggin.

Hvað endast innleggin lengi?

Endingartími innleggja fer eftir því hve mikil notkunin er og hvernig hún er. Eitt ár er algengur endingartími en oft geta þau enst lengur. Sumir lengja líf gamalla innleggja með því að setja þau í gúmmískóna eða stígvélin - ef þau eru ekki orðin óþægileg er ekkert að því að nota þau áfram. Ef innleggin hafa reynst vel en gera það ekki lengur er komin tími á endurnýjun. Þú getur pantað aukapar hjá okkur með 20% afslætti.

Hvað geri ég ef innleggin sem ég fékk eftir göngugreininguna henta mér alls ekki?

Ef ekki eru liðnir þrír mánuðir frá því þú fékkst innleggin, hafðu þá endilega samband við okkur og bókaðu endurkomutíma - hann er ókeypis. Þar finnum við í sameiningu betri lausn.

Hvort á ég að bóka tíma í göngugreiningu eða lengdarmælingu?

Langflestir vilja nákvæma skoðun á göngulagi og þá er bókuð göngugreining. Lengdarmæling getur verið nóg ef grunur er um mislengd. Hún hentar vel fyrir þá sem hafa verið í liðskiptum og þurfa upphækkun. En lengdarmæling er líka innifalin í göngugreiningunni.

Ef göngugreiningin leiðir í ljós að ég þurfi upphækkun öðrum megin, hvernig get ég leyst úr því?

Þú getur fengið sérgerð innlegg með upphækkun, eða upphækkunarhæl sem settur er undir innleggið sem fyrir er í skónum. Einnig geturðu komið með skóna þína til okkar og við getum hækkað annan skóinn fyrir þig.

Á ég að bóka tíma í göngugreiningu ef ég er með vottorð frá lækni fyrir sérsmíðuðum innleggjum?

Nei, þá skaltu bóka tíma hjá stoðtækjafræðingi eða skósmið í staðinn. Sérsmíðuð innlegg eru gerð eftir gipsmóti fótar og eru notuð þegar um miklar skekkjur eða aflaganir á fótum er að ræða og sérgerð innlegg gerð eftir göngugreiningu duga ekki til. Alltaf þarf beiðni frá lækni til að fá sérsmíðuð innlegg.

Er hægt að setja innlegg í takkaskó?

Ef engin leppur er í skónum fyrir er það nánast ómögulegt. En ef það er leppur í skónum sem hægt er að fjarlægja, er hægt að setja sérgert innlegg í staðinn. Ef þú ætlar að nota sérgerðu innleggin þín í takkaskó, láttu okkur þá vita, því það þarf að slípa þau sérstaklega til.

 

Skór

Hvað er gott að hafa í huga við val á skóm?

Mikilvægt er að velja trausta skó sem veita fótunum góðan stuðning. Gott er að taka efst um hliðarnar á hælnum með annarri höndinni og þrýsta, eða taka um skóinn að framan og aftan og vinda gætilega upp á. Ef hællinn eða skórinn leggst auðveldlega saman er hann ekki að veita nógu góðan stuðning.

Hvernig veit ég hvaða íþróttaskór henta mér?

Fyrst þarf að ákveða hvort kaupa eigi utanvegaskó eða innanbæjarskó. Innanbæjarskór henta best innandyra og á malbikuðum stígum og gangstéttum. Utanvegaskór eru með grófari sóla og henta betur úti í náttúrunni eða á malarvegum. Sumir utanvegaskórnir okkar eru í boði í vatnsheldri útgáfu. Skórnir sem við seljum í Stoð henta flestir vel bæði til hlaupa og göngu. On skórnir eru með einföldum veltisóla á meðan Hoka skórnir eru með tvöföldum veltisóla og það er mjög persónubundið hvort fólki finnst þægilegra. Asics skórnir hafa svo þá sérstöðu að þeir eru í boði með innanfótarstyrkingu, en það er einnig hægt að kaupa hjá okkur innanfótarstyrkt innlegg og setja í hvaða skó sem er. Langbest er að koma til okkar og máta skóna og finna hvað þér finnst þægilegast. Passaðu að kaupa ekki skó sem eru of litlir í tána; ef þú vilt hafa skóna þéttari er hægt að ná því fram með "heel lock"- reimun.

Hvernig inniskó eigið þið til?

Við seljum inniskó frá Ortho merkinu frá Schein, sem eru mjög stöðugir og góðir skór. Innleggin eru þannig í laginu að það hentar vel þeim sem verða gjarnan þreyttir í táberginu. Innleggin er einnig hægt að fjarlægja og setja í staðinn sérgerð innlegg. Einnig eigum við til inniskó frá Rhode, sem eru klassískir og mjög þægilegir inniskór, örlítið mýkri en Ortho skórnir. Ekki er hægt að setja innlegg í þá skó.

Hvernig veit ég hvaða skóstærð barnið mitt þarf?

Við erum með barnaskó frá Biomecanics og Ecco. Það skiptir höfuðmáli að kaupa ekki of litla skó.  Fætur barna vaxa mjög hratt fyrstu árin og þess vegna ætti alltaf að gera ráð fyrir allt að 1-1 1/2 cm fyrir framan lengstu tána. Besta leiðin til að finna réttu stærðina á skóm er að taka innleggið úr, leggja það á gólfið og láta barnið stíga á það. Við ástig þenst fóturinn alltaf eitthvað út (u.þ.b.1/2 cm).

Ég þarf að láta hækka skó eða breyta þeim. Get ég komið með þá til ykkar?

Já, það er sjálfsagt. Óþarft er að panta tíma, þú getur komið með þá í verslunina til okkar og skilið þá eftir hjá starfsmanni í móttöku. Gættu að því að útskýra nákvæmlega fyrir þeim sem tekur við skónum hvað þurfi að gera, svo allt sé á hreinu.

 

Bæklunarskór

Hver er munurinn á bæklunarskóm, sérsmíðuðum skóm og hálfsérsmíðuðum skóm?

Upplýsingar um bæklunarskó má finna hér: https://www.stod.is/skor/baeklunarskor/

Ég er komin/n með samþykkt fyrir bæklunarskóm. Hver eru næstu skref?

Hringdu í okkur í síma 565-2885 og pantaðu tíma hjá sérfræðingi til að velja skó og/eða mæla fæturna.

Get ég fengið bæklinga hjá ykkur til að sjá úrvalið af bæklunarskóm?

Við eigum því miður enga bæklinga til að lána út. Til að velja skó þarf að panta tíma hjá sérfræðingi sem fer í gegnum bæklingana með þér og veitir þér persónulega ráðgjöf um hvaða skór henta þér.

Er löng bið eftir bæklunarskóm?

Bæklunarskór eru alltaf sérpöntun að utan og því getur það tekið nokkrar vikur að fá skóna til okkar. Svo þurfum við alltaf að vinna skóna frekar eftir að þeir berast okkur. Við sendum viðskiptavinum okkar skilaboð um leið og skórnir eru tilbúnir.

 

Sokkar

Hvernig sokkar eru til hjá Stoð?

Við erum með íþróttasokka frá CEP, þrýstisokka frá Medi, og byltuvarnarsokka frá KIKK Reykjavík.

Hvað eru byltuvarnarsokkar?

Byltuvarnarsokkar (einnig kallaðir byltusokkar) eru sokkar með stömum sóla, sem veita stöðugleika þegar gengið er skólaust innandyra og minnka líkur á því að fólk renni. Þeir eru með slakri teygju og henta því vel yfir þrýstisokka.

Hvernig virka CEP-sokkar?

Íþróttasokkarnir frá CEP eru til í ýmsum lengdum og þykktum sem henta fyrir mismunandi íþróttir, við eigum t.d. til sérstaka göngu-, skíða- og hlaupasokka. Þetta eru þrýstingssokkar sem auka blóðflæði og súrefnisupptöku, styðja við sinar og liðbönd, draga úr vöðvaeymslum eftir hreyfingu og líkum á meiðslum, og hraða endurheimt. Þannig hjálpa þeir þér við að ná hámarksárangri í þeirri hreyfingu sem þú stundar.

Eruð þið með ferðasokka?

Við seljum vandaða ferðasokka frá Medi og CEP sem auka blóðflæði og draga úr bjúgmyndun á ferðalögum, t.d. flugferðum. Til að finna réttu stærðina á ferðasokkum þarf að mæla ummál ökkla og lengd fótleggjar frá hnésbót að gólfi. Þú getur mælt þig sjálf/ur eða fengið aðstoð hjá starfsmanni í verslun við að velja rétta stærð.

Hvort á ég að kaupa ferðasokka eða sjúkrasokka?

Við mælum með að þú kaupir ferðasokka ef þú vilt léttari stuðning fyrir heilbrigða fætur, t.d. vegna ferðalaga eða af því að þú stendur mikið. Ef þú glímir hins vegar við einhver viðvarandi vandamál í fótleggjum mælum við með að þú takir sjúkrasokkana í staðinn. Viðvarandi vandamál geta verið t.d. bjúgur, fitubjúgur, bólgur, æðahnútar, bruni, bláæðasár eða önnur bláæðavandamál, sogæðavandamál, eða ef þú hefur fengið blóðtappa í fótlegg.

 

Sjúkrasokkar

Hvernig sjúkrasokkar eru til hjá Stoð?

Sjúkrasokkarnir okkar eru frá þýska merkinu Medi. Þeir örva flæði í bláæðum og sogæðakerfi fótleggja og draga úr bjúgmyndun. Þeir eru fáanlegir sem hnésokkar eða lærasokkar. Þrýstingurinn í þeim er mestur neðst niðri og minnkar eftir því sem ofar dregur, sem dregur úr líkum á stasa.

Hvernig veit ég hvaða stærð af sjúkrasokkum ég þarf?

Við erum með staðlaðar stærðir af sokkum, stærðir 1-7. Til að finna hver þeirra hentar þér þarf að mæla ummál ökkla og kálfa og lengd fótleggjar frá hnésbót að gólfi. Ef um lærasokka eða sokkabuxur er að ræða þarf líka að mæla ummál læris efst. Þú getur mælt þig sjálf/ur eða fengið aðstoð hjá starfsmanni í verslun við að velja rétta stærð. Einnig getur þú bókað tíma í sokkamælingu hjá sérfræðingi í síma 565-2885.

Hvað ef ég passa ekki í staðlaða stærð?

Þá getum við pantað sérsaumaða sokka fyrir þig eftir mælingu sérfræðings. Bókaðu tíma í sokkamælingu hjá okkur í s. 565-2885.

Hvernig veit ég hvaða þrýstingsklassa ég þarf?

Við mælum alltaf með að fólk prófi þrýstingsklassa 1 fyrst, nema læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður hafi sérstaklega mælt með meiri þrýstingi.

Hvort á ég að velja sokka með lokaðri eða opinni tá?

Þitt er valið, nema: Við mælum með sokkum með opinni tá ef þú ert með mjög viðkvæmar tær eða mjög langan fót, og við mælum með sokkum með lokaðri tá ef þú ert með bjúg á rist.

Hver er munurinn á Elegance, Mediven for men, Active og Plus sokkunum?

Elegance sokkarnir eru þunnir dömusokkar og Mediven for men eru þunnir herrasokkar. Active sokkarnir eru þykkari og sportlegri herrasokkar. Plus sokkarnir eru ógagnsæir sokkar, örlítið þykkari en Elegance, og henta fyrir bæði karla og konur.

Eru sjúkrasokkarnir bara til í svörtu?

Við reynum að eiga alltaf til herrasokka í svörtu og dömusokka í svörtu og húðlitu (beige eða kasmír). Ef þú vilt sokka í öðrum litum er sjálfsagt að sérpanta fyrir þig án nokkurs aukakostnaðar. Það er hægt að sérpanta mikið úrval af litum, en það gæti tekið nokkrar vikur.

Er latex í sjúkrasokkunum?

Sokkarnir eru úr elastani og næloni (pólýamíði). Það er ekki latex í þeim.

Hvað á ég að gera ef ég kemst ekki í þrýstingssokkana mína?

Til þess að klæða sig í sokkana er best að snúa þeim næstum alveg á rönguna, eða að hælnum, þannig að fóturinn sjálfur á sokknum sé það eina sem er á réttunni. Með sokkinn þannig, teygðu hann vel opinn og stingdu tánni alla leið inn. Togaðu svo í hælinn á sokknum þangað til hann er kominn yfir hælinn á þér. Þegar það er komið skaltu mjaka sokknum rólega upp fótlegginn og slétta svo vel úr honum þannig að það séu engar krumpur. Ef þér tekst ekki, eða finnst erfitt, að klæða þig í sokkinn á þennan máta, mælum við með að þú fáir þér sokkaífæru. Sokkaífæra er grind sem heldur sokknum opnum svo þú getir einfaldlega stungið fætinum ofan í sokkinn. Sokkaífærur fást hjá okkur í verslun okkar á Draghálsi.

Má ég vera í þrýstingssokkum allan daginn?

Já, það er í góðu lagi. Best er að fara í þrýstingssokkana um leið og þú vaknar og mikilvægt er að fara úr þeim áður en þú ferð að sofa.

Hvernig er best að þvo þrýstingssokka?

Best er að þvo þrýstingssokka eftir hverja notkun. Það má þvo þá í þvottavél við 30-40 gráður á mildu prógrammi án mýkingarefnis. Til að þurrka þá er best er að hengja eða leggja þá til þerris innandyra. Alls ekki setja sokkana í þurrkara eða þurrka þá á ofni eða utandyra í sólskini, þar sem það fer illa með teygjuna í þeim.

Hvað endast þrýstingssokkar lengi?

Sokkarnir halda fullri þrýstingsvirkni í u.þ.b. 6 mánuði miðað við reglulega notkun. Eftir það fer virknin minnkandi hægt og rólega. Til að sokkarnir endist sem lengst er mikilvægt að hælar og táneglur séu ekki mjög hrjúfar þannig að þær rífi ekki efnið. Við mælum með að nota hanska þegar farið er í sokkana, eða a.m.k. fjarlægja skartgripi og þjala fingurneglur, svo krækist ekki í efnið.

Er Stoð með sokkabuxur, ermar og annan þrýstingsfatnað?

Já, við erum með bæði sokkabuxur og meðgöngusokkabuxur frá Medi. Ermar og annan þrýstingsfatnað er hægt að sérpanta.

Taka Sjúkratryggingar Íslands þátt í kostnaði á sjúkrasokkum?

Til að Sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði þarf að fá lækni eða sjúkraþjálfara til að skrifa vottorð fyrir þrýstingsbúnaði. Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í niðurgreiðslu á þrýstingssokkum og -búnaði vegna bruna og langvinnra alvarlegra bláæða/sogæðavandamála eða langvarandi og mikillar bjúgsöfnunar vegna lömunar. Að jafnaði eru samþykkt 3 pör af þrýstingssokkum og 2 stk af þrýstingsermum/þrýstingshönskum á 12 mánaða tímabili.

 

Spelkur, hlífar og önnur stoðtæki

Þarf ég að bóka tíma til að kaupa spelku eða hlíf hjá ykkur?

Við erum með einfaldari spelkur og hlífar í versluninni og hver sem er getur komið og skoðað þær, mátað og keypt. Hins vegar þarftu að bóka tíma hjá stoðtækjafræðingi ef þú þarft flóknari spelku (t.d. sem þarf að stilla sérstaklega fyrir þig), eða ef þú ert með flókin vandamál sem krefjast mikillar sérfræðikunnáttu. Þegar þú mætir til stoðtækjafræðings þarftu að koma með útprentaða beiðni eða vottorð frá lækni í tímann.

Taka Sjúkratryggingar Íslands þátt í kostnaði á spelkum og hlífum?

Styrkur frá Sjúkratryggingum er veittur vegna staðfestra slitbreytinga sem valda langvarandi skerðingu á færni, mjög alvarlegra tognana, mjúkvefjaslits, brota sem valda varanlegum skaða, varanlegs taugaskaða eða hrörnunarsjúkdóma. Læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður þarf að sækja um fyrir þig hjá Sjúkratryggingum. Ef samþykkt frá Sjúkratryggingum er ekki komin til okkar megum við því miður ekki afhenda vöruna nema rukka fullt verð. Það gildir líka þegar um endurnýjun heimildar er að ræða.

Kemur einhver út á land með stoðtækjaráðgjöf?

Já, stoðtækjafræðingar fara reglulega til Selfoss og Akureyrar, og einstaka sinnum á aðra staði t.d. Vestmannaeyjar, Egilsstaði og Ísafjörð. Hringdu í okkur til að bóka tíma, s. 565-2885.

Á ég að vera með hlífina á mér allan daginn?

Það er mismunandi eftir því hvernig hlífin er og í hvaða tilgangi hún er notuð. Einfaldar stuðningshlífar er mikilvægast að vera með í hreyfingu. Ef þú ert óviss um hvernig þú eigir að nota spelkuna þína skaltu leita ráða hjá lækni eða sjúkraþjálfara, eða senda okkur tölvupóst á netfangið stod@stod.is.

Gerið þið við spelkur og hlífar?

Já, ef hlífin þín þarfnast viðgerðar geturðu komið með hana til okkar. Óþarft er að panta tíma, þú getur komið með hana í verslunina til okkar og skilið eftir hjá starfsmanni í móttöku. Gættu að því að útskýra nákvæmlega fyrir þeim sem tekur við henni hvað þurfi að gera, svo allt sé á hreinu.

Barnið mitt þarf koddabuxur, get ég komið strax til ykkar?

Hringdu á undan þér í s. 565-2885. Við reynum að koma ykkur að sem allra fyrst, en það kemur fyrir að það náist ekki samdægurs.

 

Hjálpartæki

Hvers konar hjálpartæki er Stoð með til sölu?

Hjálpartæki er tæki sem aðstoðar fólk við athafnir daglegs lífs. Þetta getur verið allt frá rafmagnshjólastól, sjúkrarúmi, barnakerru og göngugrind yfir í hækjur, bað og salernishjálpartæki og ýmiskonar smáhjálpartæki. Úrvalið má finna hér: www.stod.is/hjalpartaeki

Þarf ég að bóka tíma til að koma og skoða hjálpartæki hjá ykkur?

Þú ert alltaf velkomin/n í verslun okkar að Draghálsi 14-16 án tímabókunar. Þar erum við með sýningarsal þar sem stór hluti hjálpartækjaúrvals okkar er til sýnis. Ef þú þarft að máta hjólastóla eða vilt sérfræðiaðstoð við val á hjálpartæki mælum við með að þú bókir tíma eða hringir á undan þér til að vera viss um að það sé einhver við sem getur veitt þér sem besta ráðgjöf og þjónustu. Síminn hjá okkur er 565-2885.

Ég var að fá samþykkta niðurgreiðslu á hjálpartæki hjá Sjúkratryggingum Íslands. Get ég komið til ykkar og sótt tækið?

Þú ert velkomin/n til okkar í verslunina, en gættu að því að við eigum ekki alltaf allar vörur til. Stundum þurfum við að panta af lager eða birgja. Best er að senda okkur tölvupóst í netfangið stod@stod.is eða hringja í síma 565-2885 til að athuga hvort varan sé til áður en þú kemur. Gættu líka að því að það getur tekið allt að sólarhring fyrir samþykktina að berast til Stoðar eftir að þú færð tilkynningu um samþykkt. Ef samþykktin er ekki komin til okkar megum við því miður ekki afhenda vöruna nema rukka fullt verð. Það gildir líka þegar um endurnýjun heimildar er að ræða.

Ég pantaði hjálpartæki hjá ykkur - hvernig get ég athugað með stöðu á pöntuninni?

Það getur stundum tekið langan tíma að fá hjálpartæki afhent, þar sem oft þarf að sérpanta vörur að utan. Við höfum fullan skilning á að þetta geti verið erfið bið og við látum þig vita um leið og pöntunin þín er tilbúin til afhendingar. Ef þú vilt athuga með stöðu á pöntun er best að gera það í gegnum tölvupóst. Sendu línu á þinn tengilið hjá Stoð, eða á netfangið stod@stod.is og láttu kennitöluna þína fylgja. Við svörum þér um leið og við getum.

Get ég keypt hjálpartæki hjá ykkur og sótt um niðurgreiðslu hjá Sjúkratryggingum Íslands eftir á?

Ef þú vilt leggja sjálf/ur út fyrir hjálpartæki áður en niðurstaða um samþykkt á niðurgreiðslu liggur fyrir, er það að sjálfsögðu í góðu lagi. En gættu að því að það er á þína eigin ábyrgð. Verið getur að Sjúkratryggingar samþykki ekki niðurgreiðslu, eða taki ákvörðun um að niðurgreiða ekki tækið sem þú hefur nú þegar keypt heldur senda þér í staðinn annað tæki. Ef Sjúkratryggingar samþykkja beiðnina, þarftu sjálf/ur að senda þeim kvittunina fyrir kaupum á tækinu og sækja endurgreiðslu til þeirra.

Hjálpartækið sem ég fékk hjá ykkur er bilað, hvað á ég að gera?

Við erum með hjálpartækjaverkstæði í húsnæði okkar að Draghálsi. Fyrir tímabókanir og almennar fyrirspurnir varðandi viðgerðir, virkni tækis eða aukahluti geturðu sent tölvupóst á vidgerdir@stod.is. Ef um neyðartilfelli eða öryggisatriði er að ræða, hringdu í okkur í síma 565-2885 og við reynum við að koma þér að sem allra fyrst. Frekari upplýsingar um viðgerðir hjálpartækja má finna hér: https://www.stod.is/viogeroarjonusta-is/

Ég þarf ekki lengur á hjálpartækinu mínu að halda. Viljið þið fá það til baka?

Stoð tekur ekki við notuðum hjálpartækjum til baka. Ef Sjúkratryggingar Íslands tóku þátt í kostnaði við tækið, að hluta eða heild, þarf að skila tækinu til þeirra á Vínlandsleið 16, 113 Reykjavík, að notkun lokinni.

Er hægt að leigja hjálpartæki hjá ykkur?

Við erum bara með hjálpartæki til sölu, ekki til leigu. Ef þú þarft að leigja hjálpartæki bendum við á fyrirtækin Mobility.is og Hjálpartækjaleiguna.

 

Kæfisvefnsvél

Hvernig kæfisvefnsvél eruð þið með til sölu?

Við erum með ferðakæfisvefnsvél sem heitir AirMini frá ResMed. Hún er frá sama merki og vélarnar sem Landspítalinn er með (S9 og S10), en munurinn er sá að ferðavélin er mun minni (300g að þyngd og 13,6 cm á lengd) og notar rakasíur í stað vatns. Frekari upplýsingar um ferðavélina má finna hér: https://www.stod.is/hjalpartaeki/kaefisvefn/airmini-feroavel/airmini-feroakaefisvefnsvel/

Af hverju þarf að bóka tíma til að kaupa kæfisvefnsvél?

Við kaup á kæfisvefnsvél hittirðu sérfræðing sem stillir ferðavélina eftir hinni kæfisvefnsvélinni þinni, þannig að ferðavélin sé stillt nákvæmlega samkvæmt þinni greiningu. Í tímanum er þér einnig kennt á vélina og smáforritið sem fylgir henni, og veitt ráðgjöf varðandi kaup á aukahlutum. Hringdu í okkur í s. 565-2885 til að bóka tíma.

Má ég kaupa ferðakæfisvefnsvél ef ég á ekki aðra kæfisvefnsvél fyrir?

Ef þú ert að bíða eftir meðferð við kæfisvefni, eða ert ekki með greiningu, mælum við ekki með því að kaupa ferðavél. Stoð er söluaðili og hefur ekki heimild til að hefja meðferð fyrir þig.  Við mælum eindregið með því að bíða eftir frekari meðferð og innstillingu sem gerð er af fagaðilum. Ef þú kaupir ferðavél hjá okkur án þess að hún sé stillt eftir annarri vél er ekki hægt að tryggja bestu mögulegu virkni fyrir þig persónulega. Í slíkum tilfellum getum við selt þér vélina á verksmiðjustillingu og er meðferðin því ekki sett upp fyrir einstaklinginn út frá niðurstöðu greiningar. Við bjóðum hinsvegar uppá endurkomu til þess að stilla ferðavélina eftir stillingum kæfisvefnsvélar frá spítalanum.

Taka Sjúkratryggingar Íslands þátt í kostnaði við ferðakæfisvefnsvélar?

Nei, þær gera það ekki.

Er hægt að nota ferðavélina í staðinn fyrir spítalavélina?

Við mælum með að halda vélinni frá spítalanum og hafa ferðavélina sem auka vél. Inn í verðinu sem fylgir spítalanum er eftirfylgni og hægt að fá aukahluti og grímur án þess að greiða fyrir. Hjá okkur þarf að kaupa alla aukahluti og grímur. Hjá spítalanum eru fagaðilar í svefnrannsóknum en við erum aðeins söluaðilar.

Seljið þið aukahluti í kæfisvefnsvélar?

Já, við erum með ýmsa aukahluti í kæfisvefnsvélarnar frá ResMed, bæði AirMini og S9/S10. Við eigum til grímur, síur, hökubönd, barka, og hleðslubatterí, meðal annars. Við eigum þó ekki til smærri aukahluti eins og t.d. millistykki í grímur.

Hver er munurinn á mismunandi gerðum af rakasíum?

HumidX rakasíurnar henta fyrir flestar gerðir loftslags, á meðan HumidX Plus henta fyrir mjög þurrt loftslag. Sumum finnst gott að nota HumidX í heitu löndunum og HumidX Plus á Íslandi, en það er persónubundið hvað fólki finnst þægilegast. Fyrir andlitsgrímuna F20 er aðeins ein gerð sem er HumidX F20 og smellist inn í grímuna.

Hvernig veit ég hvaða gríma hentar mér?

Það er mjög persónubundið hvaða gríma fólki finnst þægilegust. Ef þú ert með innilokunarkennd hentar minni gríma líklega betur, en ef þú ert með skegg getur verið að stærri grímu þurfi til að hún innsiglist. Ef þú átt N20, F20 eða F30 grímu geturðu notað hana áfram með ferðavélinni. Það þarf þó alltaf að kaupa sérstakan barka fyrir ferðavélina.

Hvað á ég að gera ef ferðavélin mín bilar?

Það er mjög sjaldgæft að vélarnar bili, ef vel er farið með þær eins og önnur raftæki. En ef það gerist skaltu hafa samband við okkur og við leysum málið með þér. Tveggja ára ábyrgð er á vélinni.

 

 

Fróðleikur

Hér koma ýmsar greinar og fróðleiksmolar fyrir þig. Þú getur valið þér fróðleik hér að neðan.