Valmynd

Ný kvenheilsuvara - Efemia þvaglekatappi

01 Jún 2023
eftir Stoð .

Við hjá Stoð kynnum með stolti nýja kvenheilsuvöru á markað, Efemia þvaglekatappann. Um er að ræða sænska vöru frá fyrirtækinu Invent Medic Sweden sem sérhæfir sig í heilsu- og vellíðunarvörum fyrir konur. Þvaglekatappinn dregur tímabundið úr áreynsluþvagleka hjá konum eldri en 18 ára með því að styðja við þvagrásina gegnum leggangavegginn. 


Margar konur upplifa það að missa þvag í mismiklu magni við líkamlega áreynslu, eða allt að ein af hverjum fimm. Þetta getur valdið bæði vanlíðan og óöryggi í þeim aðstæðum sem þvaglekinn verður og því er okkur mikið í mun um að styðja við þær konur með því að bjóða upp á lausn sem þessa. Þvaglekatappinn er margnota og því umhverfisvænn, en markmiðið er ávallt að reyna að bjóða upp á slíkar vörur. 

Til þess að útskýra frekar hvað áreynsluþvagleki er og hvernig Efemia þvaglekatappinn virkar höfum við tekið saman svör við helstu spurningum sem kunna að vakna. 

 

Hvað er Efemia þvaglekatappi?

Efemia þvaglekatappinn er margnota leggangatappi úr læknasílikoni. Honum er ætlað að draga tímabundið úr ósjálfráðum þvagleka við áreynslu.

 

Hvað er áreynsluþvagleki?

Áreynsluþvagleki er skilgreindur sem ósjálfráður þvagleki við álag eða áreynslu, hnerra eða hósta. Vandinn er ekki skilgreindur eftir magni eða tíðni lekans. Þvagleki er félagslegt vandamál hjá mörgum, auk þess sem hann hefur áhrif á hreinlæti. Áreynsluþvagleki getur valdið ertingu, útbrotum og sýkingum á kynfærasvæði vegna endurtekinnar snertingar við þvag. 

 

Hvernig veit ég hvort ég sé með áreynsluþvagleka? 

Það geta verið margar ástæður fyrir þvagleka en í mörgum tilfellum er það merki um veikleika í grindarbotnsvöðvum sem leiðir af sér lekann. Þvagleki getur verið margs konar en áreynsluþvagleki er það sem við erum að vísa í þegar lekinn verður við líkamlega áreynslu. 

Almennt eru eftirfarandi atriði merki um þvaglekavandamál:

 • Þú upplifir þvagleka þegar þú finnur fyrir þörf til að pissa
 • Þér finnst þú þurfa að pissa oft bæði dag sem nótt
 • Litlir dropar af þvagi leka úr þvagrásinni
 • Þú upplifir þvagleka þegar þú ert að gera eitthvað sem reynir á líkamlega

Hér má sjá myndband sem útskýrir þetta nokkuð vel og hvernig Efemia þvaglekatappinn nýtist.

 

 

Hvernig er Efemia þvaglekatappinn notaður?

Þvaglekatappanum er komið fyrir í leggöngunum og mikilvægt er að gæta að handþvotti með vatni og sápu áður en tappanum er komið fyrir. Einnig skal þvagblaðran vera tóm. Nánari upplýsingar um notkun og uppsetningu þvaglekatappans er að finna í notkunarleiðbeiningum.

 

Hvernig er Efemia þvaglekatappinn þveginn?

Þrjár leiðir eru til að þvo þvaglekatappann:

 1. Skolaðu tappann vandlega með hreinu vatni. Þetta hentar vel ef nota á tappann strax aftur.
 2. Láttu tappann sjóða í hreinu vatni í 10 mínútur og leggðu hann svo til þerris.
 3. Hreinsaðu með hreinu vatni og sápu, helst sápu ætlaðri til notkunar á kynfærasvæði. Gættu að því að þvo allan hlutinn. Skolaðu alla sápu vandlega af og leggðu til þerris. 

 

Hvernig veit ég hvaða stærð af Efemia þvaglekatappa skal nota?

Í byrjunarsettinu fylgja allar þrjár stærðirnar (30, 35 og 40 mm) af þvaglekatappanum. Hver og ein þarf að prófa sig áfram og finna hvaða stærð hentar og virkar. Í framhaldinu er svo hægt að kaupa þvaglekatappann stakann í þeirri stærð sem hentar.

 

Hversu lengi má nota sama þvaglekatappann? 

Mælt er með því að tappanum sé skipt út eftir þriggja mánaða notkun.

 

Nánari upplýsingar má nálgast á www.efemia.se eða með því að senda fyrirspurnir til okkar á netfangið hjukrun@stod.is

Smelltu hér til að skoða og versla Efemia þvaglekatappann í netverslun.

 

Júlía Rós Atladóttir tekur tímabundið við framkvæmdastjórakeflinu

31 Maí 2023
eftir Stoð .
Starf framkvæmdastjóra Stoðar er laust til umsóknar en þangað til að ráðið verður í starfið stýrir Júlía Rós Atladóttir fyrirtækinu. Júlía er framkvæmdastjóri Distica, systurfélags Stoðar, og hefur gegnt því starfi frá árinu 2020.
 
“Mér fannst gríðarlega spennandi að fá að stökkva tímabundið inn í starf framkvæmdastjóra Stoðar þar sem fyrirtækið stendur á ákveðnum tímamótum og við blasa mörg tækifæri auk þess sem ég lít á þetta sem persónulegan lærdóm”, segir Júlía.
 
Júlía hefur lokið meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun, diplómanámi í mannauðsstjórnun, diplóma í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun og B.Ed. gráðu frá Háskóla Íslands. Við bjóðum Júlíu velkomna og hlökkum til að vinna með henni.
 
Nánari upplýsingar um laust starf framkvæmdastjóra má nálgast hér.
 

Stoð leitar að framkvæmdastjóra

25 Maí 2023
eftir Stoð .

Stoð óskar eftir að ráða drífandi leiðtoga í krefjandi og áhugavert starf framkvæmdastjóra. Viðkomandi þarf að búa yfir leiðtogahæfileikum, samskiptahæfni, getu til að hrinda verkefnum í framkvæmd og drifkrafti til að leiða starfsfólk að sameiginlegum markmiðum.


Framkvæmdastjóri Stoðar starfar samkvæmt stefnu, gildum og framtíðarsýn fyrirtækisins og er öðrum til fyrirmyndar í hreinskiptni, framsækni og áreiðanleika. Stoð er eitt af fimm dótturfyrirtækjum samstæðu Veritas og starfa fyrirtækin náið saman.

Helstu viðfangsefni og ábyrgð:

 • Ábyrgð á daglegum rekstri og afkomu fyrirtækisins, þ.m.t. mannauðsmálum, birgðum, upplýsingatækni o.fl.
 • Ábyrgð á áætlanagerð og uppgjöri
 • Tilboðs- og samningagerð við innlenda og erlenda aðila
 • Samskipti við viðsemjendur, birgja og aðra hagsmunaaðila
 • Stuðningur við deildarstjóra og annað lykilstarfsfólk
 • Ábyrgð á markmiðum og áætlunum gagnvart stjórn
 • Þátttaka í framkvæmdastjórn Veritas og stefnumótun samstæðunnar


Menntunar- og hæfniskröfur:

 • Háskólamenntun sem nýtist í starfi
 • Reynsla af stjórnun, rekstri og mannauðsmálum er nauðsynleg
 • Reynsla af smásölurekstri og markaðsstarfi er kostur
 • Þekking og reynsla af framkvæmd opinberra útboða og samskiptum við aðila innan heilbrigðisgeirans
 • Reynsla og þekking á heilbrigðisþjónustu er kostur
 • Reynsla af alþjóðaviðskiptum og samningagerð
 • Leiðtoga- og forystuhæfileikar
 • Drifkraftur, frumkvæði og metnaður til að ná árangri
 • Framúrskarandi samskiptahæfni og þjónustulund
 • Skipulagshæfni, góð yfirsýn og geta til að halda mörgum boltum á lofti
 • Góð tungumálakunnátta


Umsóknarfrestur er til og með 4. júní 2023. Umsókn óskast fyllt út á www.intellecta.is og þarf henni að fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir hæfni umsækjanda sem nýtist í starfið. Áhugasamir aðilar, óháð kyni, eru hvattir til að sækja um. Farið verður með allar umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál og þeim svarað að ráðningu lokinni.

Stoð er framsækið þjónustufyrirtæki á heilbrigðissviði sem stofnað var árið 1982. Fyrirtækið sérhæfir sig í lausnum, vörum og þjónustu fyrir fatlaða, aldraða og fólk með stoðkerfisvandamál. Í glænýju og sérhæfðu húsnæði Stoðar að Draghálsi 14 -16 starfa yfir 30 manns, m.a. fjöldi sérfræðinga við smíði á spelkum, gervilimum, skóm og innleggjum. Einnig aðstoðar starfsfólk viðskiptavini við val á hjálpartækjum, skóm o.fl. Nánari upplýsingar má finna á www.stod.is.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Thelma Kristín Kvaran (thelma@intellecta.is) í síma 511 1225.

 

Hjúkrunarfræðingur óskast til starfa hjá Stoð

16 Maí 2023
eftir Stoð .

Hefur þú brennandi áhuga á að bæta lífsgæði fólks?

Við leitum að öflugum aðila í spennandi starf hjúkrunarfræðings.

Ef þú ert jákvæður og framtakssamur einstaklingur sem vill takast á við fjölbreytt og krefjandi verkefni hjá spennandi fyrirtæki gæti þetta starf hentað þér. Starfið felur í sér sérfræðiráðgjöf, ásamt sölu og þjónustu á hjúkrunar- og heilbrigðisvörum. Vöruflokkarnir sem viðkomandi kemur til með að sjá um eru m.a. stóma- og þvagvörur, kvenheilsa og kæfisvefn. Viðkomandi þarf að hafa frumkvæði og getu til að hrinda verkefnum í framkvæmd, vera árangursdrifinn og hafa gott auga fyrir nýjum tækifærum.

Helstu verkefni:

 • Ráðgjöf, sala og markaðssetning á hjúkrunarvörum til einstaklinga, heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila.
 • Kynningar, fræðsla og eftirfylgni fyrir notendur og heilbrigðisstarfsfólk.
 • Vinna við útboð og tilboðsgerð.
 • Vörumerkjastjórnun og samstarf við erlenda birgja, Sjúkratryggingar Íslands og aðra hagaðila.

Menntunar- og hæfniskröfur

 • Nám í hjúkrunarfræði
 • Þekking og reynsla af hjúkrunarvörum.
 • Þekking á heilbrigðismarkaði.
 • Reynsla af sölustörfum æskileg.
 • Framúrskarandi samskiptahæfni og þjónustulund.
 • Frumkvæði, drifkraftur og jákvætt viðhorf.
 • Greiningar- og skipulagshæfileikar og metnaður til að ná árangri í starfi.
 • Mjög góð tölvukunnátta.

Umsóknarfrestur er til og með 21. maí 2023. Hvetjum áhugasamt fólk til að leggja inn umsókn en unnið verður úr umsóknum jafnóðum.

Sótt er um starfið í gegnum ráðningarvef Stoðar. Umsókn skal fylgja ítarleg ferilskrá og kynningarbréf þar sem fram koma ástæður þess að sótt er um starfið og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi.

Nánari upplýsingar veita Ásthildur Gunnarsdóttir, deildarstjóri sölu- og þjónustudeildar, og Karen Bjarnhéðinsdóttir, deildarstjóri hjálpartækjadeildar.

Stoð á nýjan stað 24. apríl

18 Apr 2023
eftir Stoð .

Það er í nógu að snúast þessa dagana enda erum við í óðaönn að pakka niður og flytja starfsemina á Dragháls 14-16, 110 Reykjavík. Við biðjumst velvirðingar ef þið náið ekki í okkur símleiðis en það er alltaf hægt að senda póst á stod@stod.is og við leggjum okkur fram um að vinna eins fljótt úr fyrirspurnum og unnt er.

Það verður LOKAÐ föstudaginn 21. apríl og ný verslun OPNAR mánudaginn 24. apríl við Draghálsinn. Við hlökkum til að taka á móti ykkur á nýjum stað!