Algengar spurningar
Göngugreining og innlegg
Í hvaða tilfellum getur göngugreining hjálpað manni?
Göngugreining getur verið lausn við eftirtöldum vandamálum:
- Þreytuverkir og pirringur í fótum
- Verkir eða eymsli í hnjám, tábergi, iljum eða hælum
- Beinhimnubólga
- Óþægindi eða verkir í baki og/eða mjöðmum
- Hásinavandamál
- Óþægindi í ökklum
- Þreytu- og álagsverkir hjá börnum og unglingum
Þarf ég að panta tíma fyrirfram í göngugreiningu?
Já, þú getur pantað tíma á netinu eða með því að hringja í okkur í síma 565-2885
Þarf ég vottorð frá lækni til að koma í göngugreiningu?
Það er ekki þörf á því. Ef þú ert með greiningu frá lækni, láttu okkur þó endilega vita.
Komið þið út á land að göngugreina?
Að svo stöddu framkvæmum við einungis göngugreiningar á Draghálsi 14-16 í Reykjavík.
Hvað þurfa börn að vera orðin gömul til að mega fara í göngugreiningu?
Börn þurfa að vera orðin tveggja ára gömul til að fara í göngugreiningu.
Get ég komið í göngugreiningu ef ég nota göngugrind að staðaldri?
Í flestum tilfellum, já. Ef þú getur gengið hægt á bretti, þar sem hægt er að styðja sig við, geturðu komið í göngugreiningu.
Hvernig fer göngugreining fram?
Göngugreiningin tekur um 30 mínútur. Inni í greiningarherberginu gengurðu á göngubretti með innbyggðum þrýstinemum sem skila upplýsingum um göngulag þitt á tölvutæku formi. Starfsmaður lengdarmælir einnig fótleggi þína. Nánari upplýsingar um hvernig göngugreining fer fram má finna hér: www.stod.is/gongugreining/
Hverjir framkvæma göngugreiningar hjá Stoð?
Lærðir íþróttafræðingar með áralanga reynslu af göngugreiningum.
Má foreldri mitt/fjölskyldumeðlimur/vinur/aðstoðarmaður vera með mér í herberginu á meðan göngugreining fer fram?
Já, það er alveg sjálfsagt. Ef líka á að göngugreina þann einstakling þarf þó alltaf að bóka tvöfaldan tíma.
Fæ ég séraðlöguð innlegg í kjölfar göngugreiningar?
Oft er það niðurstaðan en alls ekki alltaf. Stundum kemur í ljós í göngugreiningu að aðrar lausnir henti betur, t.d. almenn innlegg, hækkunarhælar, tábergspúðar eða öðruvísi skór. Starfsmenn Stoðar veita faglega og persónulega ráðgjöf og fræðslu til að finna góða lausn við þínum vanda og til áframhaldandi bættrar heilsu.
Hvað þarf ég að bíða lengi eftir innleggjunum mínum?
Við gerum okkar besta til að biðin sé ekki lengri en 2-3 vikur.
Hvað á ég að gera ef innleggin passa ekki í skóna mína?
Alltaf skal fjarlægja innleggin sem fyrir eru í skónum áður en nýju innleggjunum er komið fyrir. Ef innleggin eru enn of löng má klippa framan af þeim. Ef það dugar ekki til geturðu komið með innleggin og skóna til okkar og við aðstoðum þig við að koma innleggjunum fyrir.
Á ég alltaf að vera með nýju innleggin mín?
Í fyrstu skiptin sem nýju innleggin eru notuð gæti óþæginda orðið vart og því má takmarka notkunina til að byrja með. Auka skal notkunina smátt og smátt þangað til að hún verður samfelld. Ef engin óþægindi eru þá er óhætt að vera með þau að vild.
Hvernig á ég að hugsa um innleggin mín?
Ef innleggin blotna á að taka þau upp úr skónum og láta þau þorna við stofuhita en ekki setja þau á ofn. Þetta á sérstaklega við þau innlegg sem hafa verið límd saman með einhverjum hætti. Til að þrífa innleggin skal nota rakan klút og strjúka af þeim. Ekki nota vatn og sápu því það getur skemmt innleggin.
Hvað endast innleggin lengi?
Endingartími innleggja fer eftir því hve mikil notkunin er og hvernig hún er. Eitt ár er algengur endingartími en oft geta þau enst lengur. Sumir lengja líf gamalla innleggja með því að setja þau í gúmmískóna eða stígvélin - ef þau eru ekki orðin óþægileg er ekkert að því að nota þau áfram. Ef innleggin hafa reynst vel en gera það ekki lengur er komin tími á endurnýjun. Þú getur pantað aukapar hjá okkur með 20% afslætti.
Hvað geri ég ef innleggin sem ég fékk eftir göngugreininguna henta mér alls ekki?
Ef ekki eru liðnir þrír mánuðir frá því þú fékkst innleggin, hafðu þá endilega samband við okkur og bókaðu endurkomutíma - hann er ókeypis. Þar finnum við í sameiningu betri lausn.
Skór
Hvað er gott að hafa í huga við val á skóm?
Mikilvægt er að velja trausta skó sem veita fótunum góðan stuðning. Gott er að taka efst um hliðarnar á hælnum með annarri höndinni og þrýsta, eða taka um skóinn að framan og aftan og vinda gætilega upp á. Ef hællinn eða skórinn leggst auðveldlega saman er hann ekki að veita nógu góðan stuðning.
Hvernig veit ég hvaða íþróttaskór henta mér?
Fyrst þarf að ákveða hvort kaupa eigi utanvegaskó eða innanbæjarskó. Innanbæjarskór henta best innandyra og á malbikuðum stígum og gangstéttum. Utanvegaskór eru með grófari sóla og henta betur úti í náttúrunni eða á malarvegum. Sumir utanvegaskórnir okkar eru í boði í vatnsheldri útgáfu. Skórnir sem við seljum í Stoð henta flestir vel bæði til hlaupa og göngu. On skórnir eru með einföldum veltisóla á meðan Hoka skórnir eru með tvöföldum veltisóla og það er mjög persónubundið hvort fólki finnst þægilegra. Asics skórnir hafa svo þá sérstöðu að þeir eru í boði með innanfótarstyrkingu, en það er einnig hægt að kaupa hjá okkur innanfótarstyrkt innlegg og setja í hvaða skó sem er. Langbest er að koma til okkar og máta skóna og finna hvað þér finnst þægilegast. Passaðu að kaupa ekki skó sem eru of litlir í tána; ef þú vilt hafa skóna þéttari er hægt að ná því fram með "heel lock"- reimun.
Hvernig inniskó eigið þið til?
Við seljum inniskó frá Ortho merkinu frá Schein, sem eru mjög stöðugir og góðir skór. Innleggin eru þannig í laginu að það hentar vel þeim sem verða gjarnan þreyttir í táberginu. Innleggin er einnig hægt að fjarlægja og setja í staðinn sérgerð innlegg. Einnig eigum við til inniskó frá Rhode, sem eru klassískir og mjög þægilegir inniskór, örlítið mýkri en Ortho skórnir. Ekki er hægt að setja innlegg í þá skó.
Fróðleikur
Hér koma ýmsar greinar og fróðleiksmolar fyrir þig. Þú getur valið þér fróðleik hér að neðan.