Stuðningur við notendur gerviútlima
Hjá Stoð starfar hópur stoðtækjafræðinga og sjúkraþjálfara með sérfræðiþekkingu á spelkum, gerviútlimum og öðrum stoðtækjum. Einn þeirra er Kjartan Gunnsteinsson sem hefur um 30 ára reynslu af vinnu við gerviútlimi. Hann starfaði um 25 ára skeið hjá Össuri bæði við vöruþróun og rannsóknir, sem og við þjónustu tengda spelkum og gervilimum.
Með stoðtækjafræðing sér við hlið
„Þegar þú missir útlim færðu í raun nýja persónu inn í líf þitt sem mun fylgja þér sem eftir er í formi stoðtækjafræðings“, segir Kjartan. „Þá skiptir máli að sambandið sé gott því stuðningur og eftirlit í viðbót við árvekni einstaklingsins eru lykilþættir hvað varðar lífsgæði einstaklings eftir aflimun.“
Æðasjúkdómar eru helsta ástæða þess að fjarlægja þarf útlim. Sykursýki er gjarnan undirliggjandi orsök og aukin tíðni sykursýki í tengslum við lífstílstengda sjúkdóma hefur aukist á síðustu árum og er enn að aukast.
„Gott aðgengi að stoðtækjafræðingi sem sinnir eftirliti og stuðningi skiptir miklu máli,“ segir Kjartan, „það er vinna og vesen að vera með gerviútlim og það þarf að huga vel að heilbrigði „stúfsins“, t.d. vegna sáramyndunar eða bara vegna hver konar óþæginda sem skapast í daglegu lífi. Stoðtækjafræðingurinn er sá sem þú hittir mun oftar en lækni eða sjúkraþjálfara eftir að endurhæfingarferli lýkur, útfærsla lausna, markmiðasetning, tengingar við aðra heilbrigðisstarfsmenn eða sáluhjálp eru helstu viðfangsefnin.“
Tækninni hefur fleygt fram
Kjartan lærði stoðtækjafræði í Bretlandi og starfaði á fyrstu starfsárum sínum hjá Fremantle Orthtotic Services í Ástralíu. „Það hafa orðið geysilegar tækniframfarir á þeim árum sem ég hef starfað í faginu.
Þróun í tengingu milli gerviútlimsins og stúfs er sú mikilvægasta fyrir notandann. Heilbrigði, þægindi og kannski einfaldleiki kom með silikonhulsunni. Þegar ég hóf störf voru til tvær gerðir, nú skipta þær hundruðum, hver og ein hönnuð fyrir fyrir mismunandi þarfir, form og virkni og fleira.
Áhugaverðasta þróunin hefur verið tengd tölvustýringu í hnjám og höndum og þar hafa tölvu- og/eða mótorstýrður búnaður skilað einna mestum framförum. Mekkanískir gerviökklar eru í enn í öflugri þróun og koltrefjatækninni fleytir enn fram.
Framtíðin er líka spennandi í þessum efnum, gervigreindin er farin að skila árangri. Otto Bock, sem er okkar aðal birgi á sviði gerviútlima, er nýbúinn að setja út Myosmart fyrir tölvustýrðar hendur. Hugbúnaðurinn nemur merki og einangrar það frá vöðvum þegar notandi framkvæmir tiltekna hreyfingu. Í kjölfarið fínstillir hugbúnaðurinn merkið sem skilar sér til þannig að skilvirkni í handarhreyfingum verður betri og orkunýting minni í vöðvunum. Hægt er að þjálfa hugbúnaðinn inn á ákveðnar hreyfingar og getur þannig betur líkt eftir hreyfingum raunverulegs útlims.
Hugurinn ber þig alla leið
Þegar Kjartan er spurður hvað sé áhugaverðast við starf stoðtækjafræðings sem sérhæfir sig í gerviútlimum svarar hann að bragði: „Fólkið, og það að geta verið til staðar fyrir fólk sem á þarf á okkur að halda og styðja það við að ná sínum markmiðum. Það er einstakt að sjá þegar fólk fer fram úr bæði mínum og sínum eigin markmiðum. Það er nefnilega þannig að það er kollurinn sem skiptir mestu máli þegar kemur að því að lifa lífinu með gerviútlim. Tækni og tækniframfarir hjálpa vissulega, en þegar upp er staðið er það viðhorfið og þín eigin markmiðssetning sem ber þig alla leið. Ég er hér til að hjálpa þér að lifa með útlimamissinum og ná þínum markmiðum “.
---
Hægt er að bóka tíma hjá Kjartani í síma: 565-2885, eða í gegnum bókanakerfi á stod.is „tími hjá stoðtækjafræðingi“.