Alþjóðlegur dagur iðjuþjálfunar
Alþjóðlegur dagur iðjuþjálfunar (World Occupational Therapy Day) er haldinn hátíðlegur mánudaginn 27. október.
Markmiðið iðjuþjálfunar er að auka sjálfstæði, lífsgæði og þátttöku einstaklingsins í þeim athöfnum sem skipta hann máli. Í þessu felst meðal annars að kenna nýjar leiðir til að framkvæma verkefni eftir slys eða veikindi, og aðlaga umhverfi eða hjálpartæki til að auðvelda daglegt líf.
Hönnuður og kennari í senn
Nanna Margrét Guðmundsdóttir er iðjuþjálfi hjá Stoð. Þegar hún er spurð hvers vegna fagið varð fyrir valinu segir hún eftir nokkra umhugsun: „Á unglingsárunum tók ég áhugasviðskönnun í menntaskóla því ég vissi ekki hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Niðurstaðan var annað hvort tískuhönnuður eða kennari, mér fannst það skrýtin niðurstaða sem ég bjóst ekki við. Eftir á að hyggja, var þessi útkoma nokkuð viðeigandi þar sem að hlutar þessara starfa koma á einhvern hátt á mismunandi vegu fram í starfi iðjuþjálfans. Starfið snýst um að búa yfir útsjónarsemi til að finna lausnir sem henta einstaklingum með ólíkar áskoranir, svolítið svipað og hönnuður, og að handleiða fólk við að hagnýta þessar lausnir í daglegu lífi, sem er einskonar kennarastarf.“
Að nálgast einstaklinginn
Iðjuþjálfar koma við sögu á ýmsum æviskeiðum allt frá því að styðja við börn með þroskafrávik til að taka þátt í leik og námi yfir í að hjálpa eldri einstaklingum að viðhalda færni sinni og sjálfstæði. „Svo eru þeir sem lenda í slysum eða veikindum, jafnvel í blóma lífsins“, segir Nanna, og þarna byggir hún á persónulegri reynslu. „Mamma mín varð fyrir mænuskaða í bílslysi þegar hún var á besta aldri, þá sá ég svo glöggt hvað það skipti hana miklu máli að finna leiðir til endurhæfingu sem hæfðu hennar áhugasviði og hvað fagleg og rétt nálgun við einstaklinginn er mikilvæg. Mamma talaði alltaf mjög jákvætt um iðjuþjálfunina, og iðjuþjálfarnir á Grensás höfðu mikil áhrif á hana, og í raun líka á mig. Reynsla hennar og jákvæðar sögur af starfi iðjuþjálfa á Grensás höfðu mikil áhrif á námsval mitt og vöktu áhuga minn á faginu."
Endalaus fjölbreytni
Iðjuþjálfar starfa meðal annars á sjúkrahúsum, í skólum, á heilsugæslum, hjúkrunarheimilum og í endurhæfingarþjónustu, þar sem þeir styðja fólk við að bæta og viðhalda færni í daglegu lífi. „Fjölbreytnin í þessu starfi er mikil,“ segir Nanna, sem bæði hefur starfað sem iðjuþjálfi á Hrafnistu og sem ráðgjafi í notkun hjálpartækja hjá Stoð. „Þó þetta séu um margt ólík störf þá er grunnurinn samt sá sami og snýst um að mæta fólki þar sem það er, finna hvar áhuginn liggur og nota þau viðfangsefni við endurhæfingu. Það að einstaklingurinn hafi áhuga á viðfangsefninu styrkir og flýtir fyrir allri framför. Hjálpartæki spila þar líka mikilvægt hlutverk, þau geta gert fólki kleift að halda áfram að sinna því sem það hefur gaman af og tekið þátt í daglegu lífi á eigin forsendum. Iðjuþjálfun snýst í grunninn um að hjálpa fólki að gera það sem það vill og þarf að gera í daglegu lífi — því iðja er í raun allt sem við gerum.“