Vöruflokkar Vöruflokkar

Gervilimir

 

Gervilimir eru alltaf sérsmíðaðir í samráði við viðskiptavin og  meðferðaraðila og miðast lausnirnar við ástand og getu viðkomandi.

Stoðtækjafræðingar Stoðar hafa það meginmarkmið að þjónusta viðskiptavini á sem bestan hátt og hafa mikla reynslu í þjálfun og hvaða tæknilega útfærsla hentar viðkomandi, óháð framleiðanda íhluta.

Ferlið við að smíða gervilimi hefst oft fyrir aflimun eða fljótlega eftir aflimun viðkomandi. Það er mjög einstaklingsbundið hve langan tíma það tekur fyrir fólk að komast á ról á ný.

Sár þurfa að gróa og þá er tekið mót af stúfnum, í þau þarf svo að steypa og forma mótið. Stundum þarf að máta nokkrum sinnum og prófa að nota gervifótinn/ höndina áður en allt smellur saman og hægt  er að fara í útlitsfrágang.

Gervifætur er hægt að fá í mörgum útfærslum, allt frá einföldum útlitsfótum upp í öfluga kraftfætur sem hægt er að skokka/ hlaupa á o.s frv. Stoð hefur í samningi við Sjúkratryggingar mjög breitt úrval lausna sem byggja á íhlutum frá bestu framleiðendum í heimi ss. Otto Bock, Medi og Össuri. Stoð getur því boðið sérhannaðar lausnir sem henta öllum.

Gervihendur eru einnig mjög mismunandi, allt frá því að vera óhreyfanlegar útlitshendur upp í flóknar rafmagnshendur sem stjórnast af vöðvaboðum. Hér í Stoð höfum við einnig mikið úrval af öðrum frábærum lausnum í samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

Hjá Stoð er einnig boðið upp á þjónustu við fólk sem misst hefur t.d fingur, nef eða eyru og flokkast það undir gervilimi. Sérhæft starfsfólk gerir nákvæmar eftirlíkingar úr siliconi og er lögð mikil áhersla á lit og áferð.

Meðferðaraðili viðkomandi sér um að sækja um styrk til Sjúkratrygginga Íslands og í langflestum tilfellum greiða S.Í. fyrir gervilimina