Valmynd

Þorsteinn tekur við starfi framkvæmdastjóra Stoðar

01 Nóv 2023
eftir Guðmundur Ingvi Einarsson

Stjórn Stoðar hefur ráðið Þorstein Jóhannesson í stöðu framkvæmdastjóra félagsins. Þá tekur Þorsteinn einnig sæti í framkvæmdastjórn Veritas, móðurfélags Stoðar.

Þorsteinn hefur 20 ára reynslu sem leiðtogi í fjölbreyttu rekstrarumhverfi, m.a. hjá framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum, en síðast gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra Röntgen Orkuhússins. Þorsteinn er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.  

Stoð er rótgróið fyrirtæki sem sérhæfir sig í heildstæðum lausnum á sviði stoðtækja, hjálpartækja og almennrar stuðningsvöru.  Vöruframboðið er fjölþætt, má þar nefna sérhæfð hjálpartæki, stoðtæki, gervibrjóst,  spelkur, hlífar, þrýstingsvörur og margvísleg smáhjálpartæki sem auðvelda daglegar athafnir. Þá býður Stoð upp á göngugreiningar, innlegg og vandað framboð á skóm, þrýstingssokkum og íþróttasokkum sem henta við ólíkar aðstæður.   

„Það er virkilega ánægjulegt að hefja störf hjá Stoð. Fyrirtækið á sér merkilega sögu og hefur í áratugi gegnt mikilvægu hlutverki við að bæta lífsgæði fólks á Íslandi. Hjá fyrirtækinu starfar öflugur og skemmtilegur hópur fólks, með mikla þekkingu og hlakka ég til að vinna með þeim að tækifærunum sem framundan eru“ segir Þorsteinn.

Veritas samstæðan samanstendur, auk Stoðar, af félögunum Distica sem sinnir vörustjórnun og dreifingu til lyfjabúða, rannsóknarstofa og heilbrigðisstofnana. Vistor sem sérhæfir sig á sviði markaðssetningar á lyfjum, heilsuvörum og dýraheilbrigðisvörum. Artasan sérhæfir sig í sölu og markaðssetningu á heilsuvörum og dagvörum og MEDOR sem sérhæfir sig í ráðgjöf, sölu og þjónustu á lækningatækjum, hjúkrunar- og rannsóknarvöru.

„Við bjóðum Þorstein hjartanlega velkominn til starfa hjá samstæðunni. Stoð byggir á mikilli reynslu og sérhæfingu og mun undir stjórn Þorsteins sækja enn frekar fram í lausnum sem styðja við fjölbreyttan hóp viðskiptavina,“ segir Þóranna Jónsdóttir, forstjóri Veritas.